Hundruð vopnaðra liðsmanna Fatah-samtakanna réðust inn í opinberar stofnanir sem hafa verið undir stjórn Hamas-liða, þar á meðal palestínska þingið í Ramallah. Að sögn BBC reyndu byssumenn að taka varaforseta þingsins, Hassan Khuraishah, höndum en starfsfólk þingsins kom í veg fyrir það.
Fatha-liðar hafa einnig náð ráðhúsinu í Nablus á sitt vald. Um hundrað manns hafa látist í átökum Hamas og Fatah undanfarna viku en í dag lést enginn.
Forseti Palestínu Mahmoud Abbas mun setja nýjan forsætisráðherra neyðarstjórnar landsins, Salam Fayyad í embætti í dag. Fyrrum forsætisráðherrann, Ismail Haniya, Hamas leiðtogi hefur sagt að ólöglegt sé að setja hann af og neitar að hlíta tilmælum forsetans en hefur jafnframt hvatt íbúa landsins til að sýna stillingu og hefur skipað lögreglu að gæta þess að lögum sé framfylgt.