Barak sagður undirbúa árás á Hamasmenn á Gasasvæði

Ehud Barak.
Ehud Barak. Reuters

Breska blaðið Sunday Times fullyrðir í dag að Ehud Barak, nýr varnarmálaráðherra Ísraels, sé að undirbúa árás á Gasasvæðið innan skamms til að brjóta á bak aftur herskáa Hamasliða, sem náð hafa völdum þar. Hefur blaðið eftir ónafngreindum heimildarmönnum innan Ísraelshers, að áætlunin geri ráð fyrir að 20 þúsund manna herliði verði beitt.

Að sögn blaðsins er gert ráð fyrir að áætluninni verði hrint í framkvæmd ef Hamasmenn hefja á ný að skjóta eldflaugum á Ísrael eða gera sjálfsmorðsárásir.

Blaðið segir að Ísraelsher geri ráð fyrir því að um 12 þúsund Hamasliðar séu undir vopnum á Gasasvæðinu og þeir muni veita harða mótspyrnu. Þeir komust m.a. yfir vopn öryggissveita Fatah í þriggja daga borgarastríði á Gasa í síðustu viku.

Búist er við að Barak taki við embætti varnarmálaráðherra á morgun en hann var kjörinn leiðtogi Verkamannaflokksins í Ísrael í síðustu viku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert