Ritstjóri íraska ríkisdagblaðsins Al-Sabah, Filaih Wadai Mijthab sem rænt var af byssumönnum í síðustu viku fannst látinn í líkhúsi í Bagdad í morgun. Að sögn ritara blaðamannafélags Íraks þá er lík hans sundurskotið.
Mijthab var rænt í Habibiyah borgarhlutanum í austurhluta Bagdad nærri yfirráðasvæði Sjíta og er hann einn af fjölmörgum blaðamönnum sem hafa látist eða verið myrtir síðan Bandamenn réðust inn í landið 2003.
Að sögn AFP fréttastofunnar hafa 182 fréttamenn dáið frá því innrásin hófst. Flestir hafa verið Írakar sem hafa verið myrtir af byssumönnum sem hafa verið ósáttir við fréttaflutning þeirra eða afstöðu vinnuveitenda þeirra. Aðrir hafa lent í átökum hinna stríðandi fylkinga.