Conrad Black er bæði sekur um þjófnað og lygar, sem og fyrrverandi samstarfsmaður hans, sem játað hefur sekt, sagði saksóknari í réttarhöldunum yfir Black í Chicago þar sem ákæruvaldið lauk málflutningi sínum í dag.
Málið kann að verða lagt í kviðdóm í næstu viku. Black og þrír fyrrverandi samstarfsmenn hans, eru sakaðir um að hafa dregið sér um 60 milljónir dollara úr sjóðum almenningshlutafélagsins Hollinger International, sem þeir stýrðu.
Black stal milljónum dollara frá almennum hluthöfum vegna þess að honum fannst hann eiga rétt á þessum peningum, sagði saksóknari við kviðdóminn, sem í sitja 11 konur og fjórir karlar. Féð notaði Black til að lifa í vellystingum, og gaf konu sinni m.a. hring sem kostaði 2,6 milljónir dollara (162 milljónir króna), sagði saksóknarinn ennfremur.
Einn af fyrrverandi yfirmönnum í Hollinger International, David Radler, var helsta vitni ákæruvaldsins í málinu, en Radler hefur játað fjárdrátt og svik.
Saksóknari sagði í dag að Black og hinir yfirmennirnir hefðu veitt sjálfum sér stórar, skattfrjálsar bónusgreiðslur.
Radler sagði í vitnisburði sínum að það hefði verið hugmynd Blacks að veita fjármunum frá Hollinger International til eignarhaldsfélags undir stjórn hans sjálfs. Saksóknari sagði að þeir hefðu síðan logið því að stjórn Hollinger International að þeir hefðu gert þetta að beiðni hluthafa.
Black afsalaði sér kanadískum ríkisborgararétti er hann settist í lávarðadeild breska þingsins. Fyrirtækið Hollinger International var þriðja stærsta fjölmiðlaveldi heims, og gaf út stórblöð á borð við Daily Telegraph í Bretlandi, Jerusalem Post í Ísrael og Chicago Sun-Times í Bandaríkjunum.
Black hefur neitað sök, og sagt að hrun fyrirtækisins mætti rekja til svika Radlers og ákafra hluthafa sem eyddu mun meiri peningum í að rannsaka misgjörðir en tapast hafi í hinum meintu fjársvikum.
Black hefur einnig verið sakaður um að hafa látið Hollinger greiða fyrir afmælisveislu konu sinnar að hluta, nota þotu fyrirtækisins til að fara í frí á Bora Bora og að hafa keypt íbúð í New York af fyrirtækinu undir markaðsvirði.
Verði Black fundinn sekur á hann yfir höfði sér fangavist til æviloka.