Ekkert lát á óöldinni í Írak

Herlið Bandaríkjamanna og öryggissveitir Íraka á vettvangi sprengjuárásar Bagdad í …
Herlið Bandaríkjamanna og öryggissveitir Íraka á vettvangi sprengjuárásar Bagdad í morgun. 6 létust og 12 særðust. Reuter

Bandarískar og íraskar hersveitir hófu meiriháttar stríðsaðgerðir suður og norður af höfuðborg Íraks í dag. Nálægt írönsku landamærunum hafa grimmúðlegir bardagar staðið yfir milli bandarískra hersveita og herskárra síja með þeim afleiðingum að um 36 lágu í valnum og 100 manns særðust.

Grimmúðlegir bardagar áttu sér stað í borginni Amara og Majar al-Kabir í Maysan-héraði, en breski herinn afhenti formlega íröskum stjórnvöldum yfirráð yfir Maysan-héraði snemma á þessu ári.

Bardagarnir stóðu yfir í tvo sólarhringa og lauk um sólarupprás í morgun. Breska varnarmálaráðuneytið segir að breski herinn hafi útvegað aðstoð við skipulagningu hernaðaraðgerðarinnar en ekki tekið þátt í bardögum. Írösk yfirvöld segja að minnsta kosti 36 hafi látist í bardögunum og meira en 100 manns hafi særst. Her á jörðu niðri fékk aðstoð flughers við heraðgerðina.

Í yfirlýsingu bandaríska herliðsins er sagt að árásin hafi beinst að leynilegri deild hryðjuverkamanna. Deildin, eða sellan, á að hafa flutt inn vopn og liðsmenn frá Íran. Fjórtán liðsmenn sellunnar voru handteknir en fjórir þeirra týndu lífi.

Yfirmenn bandaríska herliðsins lýstu því yfir í dag að nú einbeiti þeir sér að finna og uppræta staði þar sem vopn eru framleidd.

Daglegt ofbeldi

Ofbeldi annars staðar í Írak hélt áfram í dag líkt og aðra daga, þrátt fyrir hertar hernaðarlegar aðgerðir Bandaríkjamanna og íraskra lögregluyfirvalda til að koma í veg fyrir átök og ofbeldi.

Í norðurhluta Bagdad sprakk vegasprengja sem ætluð var íröskum hermönnum og drap þrjá þeirra og særði tvo. Í austanverðri Bagdad, kom til átaka í morgun þegar skotið var á litla rútu, fulla af saklausum borgurum á leið til vinnu. Einn dó og tveir særðust. Suður af Bagdad drápu vígamenn tvær konur þegar þeir keyrðu fram hjá þeim og bílsprengja sprakk í borginni Falluja og létust að minnsta kosti tveir og 10 manns særðust. Í borginni Kirkuk var skotið á eftirlitsstöð lögreglu með þeim afleiðingum að lögreglumaður lést og tveir aðrir særðust lífshættulega.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert