Lögregla í Vestur-Frakklandi leitar nú að djöfladýrkendum sem eru taldir hafa kveikt í kirkju frá sextándu öld í bænum Loqueffret á Bretagne um helgina. Talið er að hópurinn hafi einnig unnið skemmdarverk á fleiri stöðum á Bretagne-skaganum.
Ekkert er eftir af kirkjunni nema útveggirnir eftir brunann og margir gamlir munir eyðilögðust í brunanum. Að sögn lögreglu virðist sem kirkjudyrnar hafi verið spenntar upp og stafirnir ABM úðaðir á veggi kirkjunnar.
Sama veggjakrot fannst einnig á átta öðrum helgum stöðum, meðal annars á krossum.
Talið er að ABM standi fyrir hreyfingu djöfladýrkenda, Aryan Black Metal. Hreyfingin tengist þungarokki, heiðni og öfgahægri mönnum í stjórnmálum.