Bush gegn rannsóknum á fósturstofnfrumum

Clinton ræðir við ungan dreng á ráðstefnu um stofnfrumur í …
Clinton ræðir við ungan dreng á ráðstefnu um stofnfrumur í háskólanum í Dartmouth. AP

George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, hefur ákveðið að nota neitunarvald sitt í þriðja sinn. Það verður í annað sinn sem hann neitar að samþykkja lagafrumvarp um að draga úr höftum á ríkisstyrktum rannsóknum á fósturstofnfrumum.

Demókratar gerðu það að forgangsmáli sínu, þegar þeir náðu meirihluta á bandaríska þinginu, að reyna í annað sinn að koma í gegn frumvarpi um að minnka höft á ríkisstyrktum rannsóknum á fósturstofnfrumum. Þeir munu þó ekki ná nægum atkvæðum til þess að koma í veg fyrir neitunarvald forsetans.

Á sama tíma hefur Bush fyrirskipað heilbrigðisyfirvöldum að hvetja frekar til rannsókna á frumum, sem eins og fósturstofnfrumur, geta breyst í ólíkar frumur og mögulega er hægt að nota til lækninga á sjúkdómum.

„Þetta er enn eitt dæmið um það hvernig forsetinn setur hugmyndafræði framar vísindum, stjórnmál framar fjölskyldum okkar, aðeins enn eitt dæmið um það í hversu litlum tengslum hann og flokkur hans eru við raunveruleikann,“ sagði Hillary Clintonm öldungadeildarþingmaður, á ráðstefnu frjálslyndra aðgerðasinna í dag.

Í yfirlýsingu forsetans ásakaði hann demókrata um að endurvinna gömul mál, sem hann nú þegar hefur notað neitunarvald sitt gegn, og sagði frumvarpið þýða að bandarískir skattgreiðendur myndu í fyrsta sinn vera skyldaðir til þess að styðja vísvitandi eyðileggingu á fóstrum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert