Japanar breyta nafni Iwo Jima í kjölfar mynda Eastwoods

Bandarískir langönguliðar reisa bandaríska fánann á Iwo Jima 23. febrúar …
Bandarískir langönguliðar reisa bandaríska fánann á Iwo Jima 23. febrúar 1945. JOE ROSENTHAL

Japönsk stjórnvöld hafa ákveðið að breyta nafni Kyrrahafseyjarinnar Iwo Jima í Iwo To, sem var upphaflega nafn hennar. Íbúar eyjarinnar áttu frumkvæðið að þessu eftir að tvær nýlegar myndir Clints Eastwoods vöktu athygli þeirra á upphaflega nafninu.

Nýja nafnið lítur eins út á japönsku og það gamla og merkir það sama, Brennisteinseyja, en nýja nafnið - sem reyndar er eldra en nafnið Iwo Jima - hljómar öðru vísi, sagði Japanska landafræðifélagið.

Fræg orrusta var háð á Iwo Jima í síðari heimsstyrjöld, og var þar tekin ein frægasta fréttaljósmynd sögunnar, af bandarískum landgönguliðum að reisa fána á Suribachi-fjalli.

Fyrir stríðið kölluðu íbúar eyjarinnar, sem voru þá um eitt þúsund, hana Iwo To. Íbúarnir voru fluttir á brott 1944. Foringjar í japanska flotanum kölluðu eyjuna Iwo Jima fyrir mistök, en nafnið festist við hana.

En heimamenn hafa aldrei verið alveg sáttir við þessa nafnabreytingu, og eftir að myndir Eastwoods, Fánar feðranna og Bréf frá Iwo Jima, vöktu athygli á breytingunni, höfðu íbúar frumkvæðið að því að gamla nafnið verði tekið upp.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert