Þúsaldarmarkmið um menntun fyrir öll börn næst ekki að óbreyttu

Börn í stríðshrjáðum löndum fá minni alþjóðlega aðstoð til menntunar …
Börn í stríðshrjáðum löndum fá minni alþjóðlega aðstoð til menntunar en önnur börn.

Alþjóðasamtökin Barnaheill vara við því í nýrri skýrslu samtakanna að þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna um menntun fyrir öll börn fyrir árið 2015 náist ekki ef þjóðir heims herði ekki róðurinn enn frekar, en sá tími sem þær gáfu sér árið 2000 til að ná þessum markmiðum er nú hálfnaður.

Skýrsla Barnaheilla, Saga framtíðarinnar, verður kynnt víða um heim í dag á alþjóðadegi flóttamanna. Meginniðurstaða skýrslunnar er að ef fjárframlög til þessara mála aukast ekki til muna, verða að minnsta kosti 30 milljónir barna, flest frá stríðshrjáðum löndum, án menntunar árið 2015. Jafnframt kemur fram í skýrslunni að mjög erfitt sé að ná til þessara barna.

Af þeim 77 milljónum barna sem eru ekki í skóla búa 39 milljónir í löndum þar sem ríkja átök. Samt sem áður fara einungis 23% af heildarframlagi til menntunaraðstoðar til þessara landa. Stærsti hluti fjármagnsins fer til landa þar sem ríkir stöðugleiki.

Í skýrslu Barnaheilla er einnig gerð grein fyrir því hvernig ríkustu þjóðir heims bregðast börnum í fátækum og stríðshrjáðum löndum. Skýrslan sýnir m.a. hvernig skuldbindingar og fjárframlög til þeirra landa sem mest þurfa á aðstoð að halda hafa minnkað verulega frá árinu 2004.

„Fyrir tveimur vikum sögðu leiðtogar átta helstu iðnríkja heims (G8), að áhersla yrði lögð á aðstoð við þau lönd sem lengst eiga í land með að ná þúsaldarmarkmiðinu um menntun fyrir alla árið 2015. Við vonum að í dag, á alþjóðadegi flóttamanna, muni leiðtogar heimsins eftir þeim börnum um heim allan sem lifa í skugga átaka og stendur skólaganga ekki til boða . Fyrir þá kynslóð barna sem nú er að vaxa úr grasi án menntunar, mun nýtt loforð um menntun fyrir alla árið 2015 einfaldlega vera of seint,“ Petrína Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla á Íslandi.

„Að veita þessum börnum tækifæri til að ganga í skóla er forsenda þess að ná öðrum þúsaldarmarkmiðum. Menntun er lykilþáttur í að byggja upp framtíð barna og samfélaga, draga úr fátækt, bæta heilsuvernd og umhverfi, og gera heiminn betri. Hvernig á fólk að taka þátt í uppbyggingastarfi í landi sínu og vera virkt í lýðræðislegu samfélagi, ef það getur hvorki lesið né skrifað?,“ spyr Petrína.

Saga Framtíðarinnar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert