Áfengi og klám bannað á svæðum ástralskra frumbyggja

Áströlsk stjórnvöld ætla að banna áfengi og klám á svæðum frumbyggja á norðursvæðunum svonefndu með það fyrir augum að stemma stigu við kynferðislegri misnotkun á börnum. Þá munu læknar skoða öll börn á þessum svæðum. Koma þessar aðgerðir í kjölfar skýrslu, sem birt var í síðustu viku en í skýrslunni var fullyrt að vísbendingar væru um misnotkun á börnum í öllum 45 samfélögum frumbyggja á þessu svæði.

Í skýrslunni segir, að mikilli áfengisneyslu og fátækt sé einkum um að kenna. John Howard, forsætisráðherra, sagði í þingi Ástralíu, að í raun ríkti neyðarástand í þessum málum og bregðast yrði við því að stór hópur ungra Ástrala hefði í raun aldrei upplifað sakleysi bernskunnar.

Howard sagði, að ástralska alríkisstjórnin myndi taka yfir stjórn á frumbyggjasvæðum næstu fimm árin og nýju reglunum verði framfylgt af hörku. En síðasta áratug hafa samfélag frumbyggja að mestu fengið að ráða sínum málum sjálf.

Leiðtogar frumbyggja hafa lýst yfir mikilli óánægju með þessar ráðstafanir. Það sé hlægilegt að banna áfengi í samfélögum frumbyggja þar sem frumbyggjarnir sjálfir hafi þegar bannað áfengisneyslu undanfarin 20 til 30 ár. Svo bannið hafi einhver áhrif verði það að gilda í borgum þar sem bæði hvítir menn og frumbyggjar búa.

Samkvæmt reglunum verða sala, flutningur og neysla áfengis bönnuð á svæðum frumbyggja næsta hálfa árið. Þá verður klámefni einnig bannað.

Takmarkanir verða settar á greiðslu almannabóta til að tryggja að ekki sé hægt að nota þær til að kaupa áfengi. Þannig verða bótagreiðslur háðar því, að börn bótaþega, ef þau eru til staðar, sæki skóla. Þá verða bótaþegar skyldaðir til að nota hluta þeirra til að tryggja að ungt fólk fái mat og föt.

Í skýrslunni kom fram, að rekja mætti misnotkun á börnum til ýmissa þátta, svo sem atvinnuleysis, slæms heilsufars og næringarskorts, vímunefnaneyslu og kláms.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka