Strandgestir varaðir við að grafa holur í sandinn

mbl.is/Brynjar Gauti

Læknar í Bandaríkjunum hafa varað við því að fólki stafi meiri ógn af holum, sem grafnar eru í sandinn í fjöruborðinu, en af árásum hákarla við strendur landsins en frá árinu 1985 hafa mun fleiri látið lífið í sandholum sem hrunið hafa yfir þá en í árásum hákarla. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Samkvæmt nýrri könnun sem greint er frá í læknatímaritinu The New England Journal of Medicine hafa að minnsta kosti 20 börn og ungmenni látist í slíkum slysum í Bandaríkjunum á undanförnum tveimur áratugum og að minnsta kosti ellefu hafa látið lífið við svipaðar aðstæður í Ástralíu, Nýja-Sjálandi og á Bretlandi. Þá hefur annar eins fjöldi sloppið naumlega úr sandinum með aðstoð nærstaddra.

“Þegar hola í sandinum fellur saman gerist það mjög hratt og fórnarlömbin fara í kaf á augnabliki. Þegar hrunið hefur átt sér stað getur verið mjög erfitt að finna staðinn þar sem holan var,” segir einn af höfundum greinarinnar, Bradley Maron.

Þá segir hann opinber gögn benda til þess að 12 manns hafi látið lífið í árásum hákarla við strendur Bandaríkjanna á árunum 1990-2006 en að á sama tíma hafi a.m.k. 16 látið lífið er þeir grófust í sand á ströndinni. Þar sem skráningar slysa af völdum sandhruns eru ekki jafn nákvæmar og skráningar hákarlaárása segir Maron jafnvel líklegt að dauðsföll af völdum sandhruns séu enn fleiri en þessar tölur gefi til kynna .

Þá varar hann foreldra við því að láta börn leika sér eftirlitslaus á ströndinni og að leyfa þeim að grafa djúpar holur í sandinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka