Samkomulag milli Þjóðverja og Pólverja um atkvæðavægi innan ESB

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Lech Kaczynski, forseti Póllands, hafa …
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Lech Kaczynski, forseti Póllands, hafa setið á stífum fundum í Brussel í gær og í dag. AP

Samkomulag hefur náðst milli Þjóðverja og Pólverja um orðalag í nýjum sáttmála, sem á að koma í stað fyrirhugaðrar stjórnarskrár Evrópusambandsins. AFP fréttastofan hefur eftir embættismanni Evrópusambandsins, að samkomulagið sé ekki endanlegt vegna þess að Lech Kaczynski, forseti Póllands, eigi eftir að bera það undir Jaroslaw Kaczynski, forsætisráðherra og tvíburabróður sinn.

Stífar viðræður hafa verið í dag milli Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, og Lechs Kaczynzkis og hafa Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, og Valdas Adamkus, forseti Litháens, einnig tekið þátt í viðræðunum en Adamkus talar pólsku reiprennandi. Gert er ráð fyrir að leiðtogarnir fjórir hittist innan skamms á fundi til að ganga endanlega frá samkomulaginu.

Þá eru leiðtogar ESB-ríkjanna einnig sagðir hafa náð samkomulagi um fyrirkomulag embættis yfirmanns utanríkismála ESB. Í drögum að sáttmálanum er fjallað um utanríkisráðherra sambandsins en embættisheitinu hefur verið breytt í utanríkismálafulltrúa ESB.

Pólsk stjórnvöld hótuðu því að beita neitunarvaldi gegn nýja sáttmálanum á leiðtogafundi ESB, sem nú stendur yfir. Pólverjar voru mótfallnir fyrirliggjandi hugmyndum um atkvæðavægi einstakra ríkja innan ESB, sem þeir segja stórum löndum eins og Þýskalandi í hag. Þeir hafa vísað til þess, að íbúar Póllands væru mun fleiri í dag ef ekki hefðu komið til hörmungar seinni heimsstyrjaldar og vilja að tekið sé tillit til þessarar staðreyndar.

Lausnin, sem nú hefur fundist, felst í því að lítill hópur ESB-ríkja, sem saman ráði næstum yfir nógu mörgum atkvæðum til að stöðva tillögur, geti krafist þess að viðkomandi tillaga verði endurskoðuð. Þá er gert ráð fyrir því að nýjar reglur um atkvæðavægi taki gildi árið 2014 en ekki 2009.

Pólverjar hafa einnig krafist þess, að vísan til fjölskyldigilda verði sett inn í nýja sáttmálann.

Bretar hafa gert athugasemdir við drög að sáttmálanum á þeirri forsendu, að þeir vilji ekki afsala sér frekara valdi til Brussel. Tony Blair, forsætisráðherra Breta, sagði nú síðdegis, að talsverður árangur hefði náðst í þessum málum. Hann viðurkenndi þó, að Bretar hefðu gefið eftir gagnvart Frökkum varðandi samkeppnismál en orðalag um að Evrópusambandið vildi koma á óbrenglaðri samkeppni var fjarlægt úr greinargerð með sáttmálanum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert