Þjóðverjar sögðu í dag að þeir vildu að ríkisstjórnir aðildarríkja Evrópusambandsins kæmust að samkomulagi um nýjan ESB-sáttmála, þrátt fyrir harða andstöðu Pólverja við þau drög sem fyrir liggja í staðinn fyrir stjórnarskrá sambandsins, sem hefur verið felld.
Talsmaður Angelu Merkel Þýskalandskanslara sagði að umtalsverður árangur hefði náðst á leiðtogafundi ESB um inntak nýs sáttmála, og Þjóðverjar myndu gefa Pólverjum „tækifæri til að fallast á hann síðar.“ Með tillögu sinni að sáttmála eru Þjóðverjar taldir vera að reyna að koma í veg fyrir að leiðtogafundurinn fari út um þúfur.