Íslamskir námsmenn rændu konum í vændishúsi í Pakistan

Lögreglumenn standa vörð utan við nuddstofuna þaðan sem fólkinu var …
Lögreglumenn standa vörð utan við nuddstofuna þaðan sem fólkinu var rænt. Reuters

Róttækir íslamskir námsmenn rændu 9 manneskjum, þar á meðal þremur kínverskum konum, úr meintu vændishúsi í Islamabad í Pakistan í morgun. Að undanförnu hafa heittrúaðir námsmenn og kennarar verið í herferð gegn kynlífsþjónustu og þykir þetta enn ein vísbendingin um að íslamskir trúaröfgar fari vaxandi í landinu.

Tugir námsmenna réðust inn á nuddstofu í auðmannahverfi í Islamabad og höfðu á brott með sér fjórar pakistanskar konur, þrjár kínverskar konur og tvo pakistanska karlmenn. Maulana Mohammed Ishaq, klerkur í Rauðu moskunni í borginni, sagði að fólkið hefði verið flutt í moskuna þar sem brýnt yrði fyrir því að taka ekki þátt í andfélagslegri hegðun. Sagði hann að fólkið yrði látið laust innan skamms.

Abdul Rashid Ghazi, annar tveggja bræðra sem reka moskuna, sagði að útlendingar lokkuðu ungmenni til kynlífsathafna undir yfirskyni nudd. Og hvort sem er leyfðu íslamskar kenningar konum ekki að nudda karlmenn.

Lögregla og innanríkisráðuneyti Pakistans sagði að verið væri að semja um lausn fólksins við stjórnendur moskunnar. Sagði Aftab Khan Sherpao, innanríkisráðherra, að hart yrði tekið á mannránum af þessu tagi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert