Efnavopna-Ali dæmdur til dauða

Dómstóll í Írak dæmdi í morgun þrjá fyrrum samverkamenn Saddams Husseins, fyrrum forseta Íraks, til dauða vegna fjöldamorðs sem framið var á Kúrdum árið 1988. Meðal sakborninganna er Ali Hassan al-Majid, sem nefndur hefur verið Efnavopna-Ali en einnig hlutu Sultan Hashim Ahmad al-Tai, fyrrum varnarmálaráðherra og Hussein Rashid Mohammed, helsti aðstoðarmaður hans, dauðadóm.

Talið er að um 180 þúsund Kúrdar hafi lítið lífið í aðgerðum íraskra stjórnvalda til að bæla niður uppreisn. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu, að al-Majid væri sekur um þjóðarmorð, mannúðarglæpi og stríðsglæpi fyrir að skipa her og öryggissveitum að beita efnavopnum gegn óbreyttum borgurum.

Þá var al-Tai fundinn sekur um að fyrirskipað umfangsmiklar aðgerðir gegn óbreyttum borgurum þar sem efnavopnum var meðal annars beitt.

Tveir sakborningar, Farhan Mutlaq Saleh, fyrrum yfirmaður leyniþjónustunnar í austurhluta Íraks, og Sabir al-Douri, fyrrum yfirmaður leyniþjónustu hersins, voru dæmdir í ævilangt fangelsi. Sjötti sakborningurinn, Taher Tawfiq al-Ani, fyrrum héraðsstjóri í Mosul, var sýknaður vegna þess að sannanir fyrir sekt hans þóttu ekki nægar.

Saddam Hussein var einnig ákærður fyrir aðgerðirnar gegn Kúrdum en hann var tekinn af lífi á síðasta ári eftir að hann var dæmdur til dauða í öðru dómsmáli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert