Lögregla á ítölsku eyjunni Sikiley handtók í gær níu manns, sem taldir eru félagar í mafíunni svonefndu. Voru mennirnir grunaðir um að hafa lagt á ráðin um að drepa hóp smáþjófa, sem starfaði á yfirráðasvæði mafíunnar á eyjunni.
Meðal hinna handteknu er Tommaso Cannella, sem er kunnur mafíuleiðtogi í bænum Prizzi nálægt Corleone.
Að sögn ítalskra fjölmiðla hleraði lögregla síma mannanna og fékk þannig upplýsingar um áform þeirra.
Á Sikiley þykir nánast eðlilegt, að fyrirtæki greiði mafíunni einskonar verndargjald og tryggja þannig að þau fái að vera í friði fyrir innbrotum og öðrum slíkum glæpum.