Umferðaröngþveiti er í nágrenni Óslóar í Noregi vegna mikillar úrkomu um miðjan dag, sem leiddi til þess að allt að 40 sentimetra djúpt vatn var á hraðbrautum norðan við borgina. Líkt og hér á landi voru Norðmenn á faraldsfæti um helgina og eru langar bílaraðir á vegum við Ósló.
Fram kemur á fréttavef Aftenposten að gríðarlegt úrhelli hafi gert um miðjan dag í norðausturhluta Óslóar og fylgdi haglél í kjölfarið. Niðurföll höfðu ekki undan og því flæddi vatn yfir vegi.