Hundruð Breta í norðurhluta Englands hafa þurft að yfirgefa heimili sín í morgun eftir að tilkynnt var að Ulley-stíflan í Rotherham í Suður Jórvíkurskíri þyldi ekki álagið eftir flóðin og rigningarnar undanfarna daga og hætta væri á að hún brysti. Hluta af M1 hraðbrautinni var einnig lokað fyrir umferð.
Yfirvöld segjast ekki vilja taka neinar áhættur og hafa látið rýma þrjú íbúðarsvæði.
Þrír hafa látist í flóðunum í Englandi. 14 ára drengur og 68 ára maður drukknuðu í Sheffield og í Hull lést ungur maður sem festist í niðurfalli.
Verst er ástandið á Norður- og Mið-Englandi en samgöngur hafa verið í uppnámi vegna flóðanna, bæði vega- og lestasamgöngur.
Veðurfræðingar segja að á sumum svæðum hafi fallið jafn mikið regn á nokkrum tímum og venjulega fellur á einum mánuði.