Héraðsdómur í Larvik í Noregi fann í dag fjögur ungmenni sek um grófa líkamsárás á 15 ára stúlku í samkvæmi í íbúð í bænum sl. haust. Þrjú af ungmennunum, sem eru 18 og 19 ára, voru dæmd í 1-2 ára fangelsi en hluti refsingarinnar var skilorðsbundinn. Einn piltur var dæmdur til að inna af hendi samfélagsþjónustu. Þá voru fjórmenningarnir dæmdir til að greiða stúlkunni bætur og málskostnað.
Mál þetta hefur vakið mikla athygli og óhug í Noregi. Aðdragandinn var sá, að farsíma stúlkunnar var stolið í fyrra og í september kom hún í unglingasamkvæmi og sakaði stúlku og pilt, sem þar voru, um að hafa stolið símanum. Þau tóku þetta óstinnt upp og byrjuðu að áreita stúlkuna með aðstoð tveggja vina sinna. Sú áreitni fór úr böndunum og var stúlkunni misþyrmt með ýmsum hætti. Hún var bundin á höndum og fótum með límbandi og 18 ára stúlka, sem fékk þyngsta dóminn, barði yngri stúlkuna ítrekað í höfuðið með regnhlíf og fleiri hlutum. Þá var hárið klippt af henni og hún var brennd með sígarettuglóð. Loks voru fötin klippt utan af stúlkunni og hún var neydd til að fróa sér.
Margir samkvæmisgestir voru vitni að þessum atburðum og þeir voru einnig teknir upp á myndsíma og myndskeiðið var sent áfram til ungmenna í bænum.
Að sögn fréttavefjar Aftenposten hefur stúlkan átt við andlega erfiðleika að stríða frá því þetta gerðist, þar á meðal þunglyndi og svefnleysi og hefur gengist undir sálfræðimeðferð.
Stúlkan, sem talin var hafa staðið fyrir misþyrmingunum, játaði sök og hefur lýst yfir mikilli iðrun. Lögmaður hennar segir skjólstæðing sinn sátta við dóminn, 2 ára fangelsi, þar af 6 skilorðsbundna.