Norskir fornleifafræðingar klóra sér nú í höfðinu eftir að þúsund ára gömul beinagrind, sem talin er vera af inkaindíána fannst í Sarpsborg í Noregi. Ekki eru heimildir um að indíánar frá Perú hafi siglt til Evrópu í kringum árið 1000.
Að sögn norsku fréttastofunnar NRK var verið að vinna við endurbætur á fornri kirkju í Sarpsborg og þegar verið var að flytja rósarunna til fundust leifar af beinagrindum. Í ljós kom að um var að ræða bein tveggja fullorðinna karlmanna og barns.
Mona Beate Buckholm, fornleifafræðingur hjá sýslusafninu, segir við NRK að við nánari skoðun hafi sést að hnakkabein í hauskúpu annars karlmannsins voru ekki gróin saman en það sér erfðagalli, sem aðeins sjáist hjá inkaindíánum í Perú. „Þetta er stórmerkilegt," segir hún.
Fornleifafræðingarnir munu nú rannsaka hvað þessi maður var að gera í Østfold og hvernig hann komst þangað.