Tony Blair forsætisráðherra Bretlands og ríkisstjóri Kaliforníu, Arnold Schwarzenegger hittust í morgun til að ræða baráttuna gegn hlýnun heimsins. Þeir funduðu yfir morgunverði á Downing stræti 10 en þetta var síðasti opinberi fundur Blairs í embætti forsætisráðherra áður en hann lætur af störfum á morgun.
Schwarzenegger hrósaði Blair fyrir góð störf í þágu umhverfisverndar en hann skrifaði undir lög í Kaliforníu í fyrra sem setja þak á útblástur í ríkinu.
Blair sagði að á G8 fundinum sem haldin var fyrir skömmu hafi í fyrsta sinn verið samþykkt í grundvallaratriðum að gera eitthvað til að sporna við losun gróðurhúsalofttegunda.
Schwarzenegger fundaði í gær með hinum nýbakaða forseta Frakka, Nicolas Sarkozy sem hann sagðist líta upp til og hafa trú á að myndi blása nýju lífi í samskipti Frakka og annarra landa og Kaliforníu.