Neyðarástand í norðausturhluta Bretlands
Yfirlýst hættuástand er enn á 25 stöðum í Bretlandi vegna flóðanna þó að veðrið hafi verið mun betra í dag en síðustu sólarhringa. Samgöngur liggja þó enn niðri. Hraðbrautir eru lokaðar, vegir og brýr hafa grafist í sundur og lestarfyrirtæki hafa afboðað ferðir. Víða er rafmagnslaust og skólahald liggur niðri þar sem flóðin hafa átt sér stað og óttast er að stíflan í Ulley bresti. Í Sheffield hafa um 900 manns nýtt sér neyðarskýli sem komið var upp í borginni. Talið er að tjón vegna flóðanna nemi mörg hundruð milljónum breskra punda.
Mestu flóðin hafa verið í Humberside og í Nottinghamskíri í norðausturhluta Bretlands en þó lentu íbúar í Gloucester sem er mun nærri London í vandræðum. Fjölmennustu borgir á flóðasvæðunum eru Sheffield, Leeds og Hull.
Maður drukknaði í götunni
Allnokkrir Íslendingar búa í borgunum Hull og Grimsby og hafa þeir heldur betur orðið varir við gríðarlegt vatnsveðrið. Einn af þeim er Gústaf Baldvinsson, forstjóri Seagold Limited, sem býr og starfar í Hull. Hann segir aldrei hafa sé annað eins vatnsveður. „Það flæddi vatn inn í húsið við hliðina á okkur en húsið okkar bjargaðist og sem betur fór flæddi aðeins inn í bílskúrinn okkar. Margt starfsfólk okkar hefur verið fast heima hjá sér og svo var hraðbrautin inn í Hull lokuð í morgun."
Gústaf segir að hryllilegt slys hafi átt sér stað í götunni þar sem hann starfar, þegar maður drukknaði í yfirfullu niðurfalli í gær. Hann segist þó ekki vita til að Íslendingar hafi lent í alvarlegum vandræðum vegna flóðanna en um átta íslenskar fjölskyldur búa í Hull og annað eins í Grimsby, „Ég veit samt um einn Íslending sem lenti í því að hjálpa fólki úr húsum sínum sem hafði þá verið fast í þeim vegna vatnselgsins."
Í Hull stytti upp í dag en veðurfræðingar spáðu rigningu aftur á fimmtudag að sögn Gústafs sem spáir því að það taki töluverðan tíma að koma samgöngum í lag aftur.
Yfirlýsing von bráðar frá umhverfisráðherra Bretlands
Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, vottaði í dag aðstandendum þeirra sem fórust í flóðunum samúð sína og sagðist finna til með þeim sem hefðu þurft að flýja heimili sín. Hann sagði að yfirlýsingar um gang mála væri að vænta í breska þinginu frá umhverfisráðherra Breta, David Miliband.