Gordon Brown, nýr forsætisráðherra Bretlands, ávarpaði fréttamenn á tröppum Downingstrætis 10 í Lundúnum eftir að hann kom af fundi Elísabetar Englandsdrottningar. Í ávarpi sínu lagði Brown mikla áherslu á að framundan væru breytingar í bresku þjóðfélagi þar sem hæfileikar allra myndu njóta sín.
Brown vísaði líka í uppeldi sitt og sagði; „Ég ólst upp í þorpi sem gaf mér þann grunn til að verða það sem ég er í dag. Ríkisstjórn Bretlands verður ný og með nýjar áherslur. Hún mun tryggja öllum breskum þegnum jöfn tækifæri og vill nýta hæfileika allra Breta. Það mun halda Bretlandi í fremstu röð."
Ennfremur lagði Brown áherslu á breytingar; „Ég finn fyrir þörfinni fyrir breytingar á öllum sviðum. Látum nú verkin og breytingar tala."