Gordon Brown, nýr forsætisráðherra Breta, segir að Tony Blair, sem lét af embætti forsætisráðherra í dag, sé í afar góðri stöðu til að taka við embætti erindreka Miðausturlandakvartettsins svokallaða. Í yfirlýsingu sem Brown gaf út í dag sagðist hann mjög ánægður með að Blair hafi tekið við stöðunni þar sem hann hafi sem forsætisráðherra sýnt skuldbindingu sína um að flýta friðarferlinu á svæðinu.
Sagði Brown að Blair kæmi til starfsins með óviðjafnanlega reynslu af alþjóðasamskiptum og erindrekastarfi.
„Viðleitni kvartettsins við að finna friðsamlega lausn á deilum Araba og Ísraelsmanna eru lífsnauðsynleg, ekki aðeins fyrir svæðið, heldur alþjóðasamfélagið allt. Friðarferlið er eitt af forgangsverkefnum okkar og við munum augljóslega halda áfram að styðja kvartettinn og erindreka hans í sínu starfi."