Talið er að fjölbragðaglímukappinn Chris Benoit hafi myrt sjö ára gamlan son sinn á laugardag, degi eftir að hann myrti eiginkonu sína. Benoit framdi síðan sjálfsvíg eftir að hafa myrt son sinn. Þetta er niðurstaða réttarlækna sem vinna að rannsókn málsins. En lík fjölskyldunnar fundust um helgina á heimili þeirra í Peachtree borg í Georgíu-ríki í Bandaríkjunum.
Morðin hafa vakið óhug en að sögn lögreglu þá virðist hann hafa dvalið á heimilinu með son sinn í sólarhring eftir að hafa myrt eiginkonu sína. Eins fundust biblíur hjá líkunum en þeim hafði verið stillt sérstaklega upp, að sögn lögreglu.
Við rannsókn á heimili glímukappans fannst talsvert magn af sterum og er verið að rannsaka hvort steranotkun eigi einhvern þátt í þeirri ákvörðun Benoit að myrða fjölskyldu sína og fremja síðan sjálfsvíg.