Á Indlandi hefur komið upp skortur á smápeningum, nánar tiltekið eins Rupee peninga og eru bankar víða uppiskroppa með skiptimynt og hafa strætisvagnar hætt að ganga sökum skorts á skiptimynt. Víða eru betlarar ríkastir af smápeningum en ástæðan fyrir skortinum mun vera sú að peningarnir eru bræddir niður í rakvélablöð sem eru verðmætari en peningarnir.
Í Kolkata fréttist að fyrir 100 Rupee peninga fengjust 125 Rupees á verkstæði einu sem breytir stálpeningunum í rakvélablöð.
Í fyrstu vikunni í Júní var eftirspurnin eftir Rupee peningum í Kolkata um hálf milljón á dag sagði talsmaður indverska seðlabankans en þessa dagana dreifir bankinn um tveimur milljónum í Kolkata og samt dugar það ekki til.
Lögreglan hefur heimildir fyrir því að peningarnir séu bræddir niður í stangir og smyglað yfir til Bangladesh þar sem unninn er ýmiss varningur úr þeim.
Rakvélablað í Bangladesh kostar um fjóra Rupee og einn peningur dugar í fjögur rakvélablöð úr ryðfríu stáli.
Þar sem skorturinn á skiptimynt er hvað verstur hafa verslunarmenn tekið til þess ráðs að láta viðskiptavini sína fá vörur í staðinn. Ein verslun bauð upp á kaffi og sælgæti.
Þess má geta að einn Rupee jafngildir um það bil einni krónu og fimmtíu íslenskum aurum.