Bandaríkjamenn hafa bannað innflutning á fimm tegundum sjávarfangs frá Kína þar til sýnt verður fram á að vörurnar séu lausar við ólögleg sýklalyf sem fundist hafa. Um er að ræða þrjár tegundir af fiski, rækjur og ál en endurteknar prófanir hafa sýnt notkun lyfja sem bönnuð eru í eldisfiski í Bandaríkjunum.
Innfluttar vörur frá Kína hafa valdið vandræðum í Bandaríkjunum að undanförnu en á síðustu vikum hafa neytendur verið varaðir við blýmengaðri málningu í leikfangalestum, gölluðum dekkjum og tannkremi menguðu með eiturefni sem oft er notað í frostlög.