Fimmtíu milljón manna gætu orðið landflótta og misst heimili sín vegna landeyðingar og eyðimerkurmyndunar á næstu 10 árum segir í skýrslu sem 200 sérfræðingar frá 25 löndum hafa gert á vegum háskóla Sameinuðu Þjóðanna. Þar segir að loftslagsbreytingar séu í þann veg að gera eyðimerkurmyndun að stærsta umhverfisvanda nútímans.
Á fréttavef BBC kemur fram að skýrslan er ómyrk í máli og að samkvæmt henni er hætta á að þriðjungur mannkyns sé í hugsanlegri hættu á að verða fórnarlömb hinnar hægfara eyðimerkurmyndunar á jörðinni.
Ofnýting á landi, ofbeit og loftslagsbreytingar eru helstu ástæðurnar. Mest er eyðimerkurmyndunin í Afríku sunnan Sahara og í Mið-Asíu.
Sérfræðingarnir leggja til að tré verði gróðursett á þurrkasvæðum og að breytingar á landbúnaðaraðferðum verði gerðar og horfið verði frá ræktun sem þarfnast mikillar vökvunar. Þó beri að hafa í huga að sumar gerðir trjáa þurfi gríðarlega mikið vatn og geti því aukið vandann fremur en minnkað hann.