Fallið hefur verið frá hugsanlegri ákæru fyrir nauðgun á hendur Moshe Katsav, forseta Ísraels en hann gerði samkomulag við ríkissaksóknara landsins. Samkvæmt samkomulaginu viðurkennir Katsav að hann hafi sýnt konum kynferðislega áreitni og brotið gegn þeim á ýmsan hátt. Þessi niðurstaða þýðir, að Katsaf sleppur með skilorðsbundinn dóm.
Menachem Mazuz, ríkissaksóknari Ísraels, kynnti samkomulagið í dag en það hefur verið gagnrýnt harðlega af fjölmiðlum og lögmönnum kvennanna, sem kærðu athæfi forsetans.
Katsav viðurkenndi einnig að hafa áreitt vitni í málinu, samþykkti að greiða jafnvirði 7 milljóna króna í bætur og hann mun einnig segja af sér embætti.
Katsav var upphaflega sakaður um að hafa nauðgað konu, sem starfaði í ferðamálaráðuneyti Ísraels þegar forsetinn var ferðamálaráðherra. Í kjölfarið komu fleiri konur fram með ásakanir á hendur Katsav.
Fyrir liggur, að Shimon Peres mun taka við forsetaembætti Ísraels um miðjan júlí.