Lögregla lokaði hluta af miðborg Lundúna í nótt þegar hlutur fannst í bíl sem mögulega gat verið sprengibúnaður. Gerði sprengjusveit lögreglunnar tækið óvirkt en ekkert frekar hefur verið gefið upp um þennan búnað. Sky fréttastofan segir að um hafi verið að ræða öfluga sprengju og allt bendi til þess að tekist hafi að koma í veg fyrir hryðjuverkaárás.
Búnaðurinn fannst í bifreið á Haymarket sem er í nágrenni Picadilly Circus um tvöleytið í nótt. Sky hefur eftir sjónarvottum, að karlmaður hafi ekið bílnum, sem var silfurgrár Mercedes Benz, á öskutunnur nálægt næturklúbbi á svæðinu og síðan tekið til fótanna.
Lögregla var kölluð til. Sky segir, að í bílnum hafi einnig verið tveir gaskútar og mikið magn af nöglum.
Gordon Brown forsætisráðherra sagði í tilkynningu að Bretland þyrfti að takast á við ógn sem væri stöðug og alvarleg og hvatti almenning til að vera stöðugt á varðbergi.
Samkvæmt fréttavef BBC er ríkisstjórnin búin að kalla til neyðarnefnd sem nefnist Cobra og fer innanríkisráðherrann Jacqui Smith fyrir henni.
BBC telur að tímasetning sprengjutilræðisins sé mikilvæg, einum degi eftir að Gordon Brown tekur við embætti forsætisráðherra og skömmu áður en ár hefur liðið frá sprengjutilræðunum sem gerð voru í London 7. júlí 2005.