Skandínavískur pirringur

Stokkhólmur er stærsta höfuðborg á Norðurlöndunum en er hún höfuðborg …
Stokkhólmur er stærsta höfuðborg á Norðurlöndunum en er hún höfuðborg Skandinavíu? Reuters

Stokkhólmur hefur undandfarin tvö ár verið kynntur sem höfuðborg Skandínavíu og miðpunktur alls á alþjóðlegum sýningum innan ferðamannaiðnaðarins. Í danska blaðinu Politiken kemur fram að kynningarskrifstofa Kaupmannahafnar,Wonderful Copenhagen séu menn ekki hrifnir af þessum áróðri Svíanna.

„Þessi staðhæfing er ósönn. Skandínavía á sér ekki höfuðborg og Stokkhólmur liggur að mörgu leyti verr til en Kaupmannahöfn og þetta pirrar fólk hér því oft erum við með kynningarbása hlið við hlið að kynna Skandínavíu,” sagði upplýsingafulltrúi Wonderful Copenhagen, Mette Dahl-Jensen í samtali við Politiken.

Olle Zetterberg sem stýrir Stockholm Business Region sem lét hanna herferðina Stockholm – the capital of Scandinavia vörumerkið sagðist kannast við hinn danska pirring en stendur fast á þeirri meiningu að Stokkhólmur væri höfuðborg Skandínavíu.

„Við erum fyrsti viðkomustaðurinn í Skandínavíu hvernig sem á það er litið bæði í menningu og viðskiptum, við deilum til að mynda út Nóbelsverðlaununum. Það þýðir samt ekki að það sé ekki þess virði að heimsækja aðra staði,” sagði Zetterberg.

Samkvæmt danska vefritinu Børsen.dk er Kaupmannahöfn í 20. sæti á alþjóðlegum lista sem nefnist Anholt City Brands Index en næst á eftir Tokyo og Las Vegas kemur Stokkhólmur í 26. sæti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert