A.m.k. þrír hafa látist í óeirðum við Nahr al-Bared flóttamannabúðirnar í norðurhluta Líbanons í dag en líbanskir hermenn hafa skotið á Palestínumenn sem reynt hafa að komast með valdi inn í búðirnar til heimila sinna. Líbanskar hersveitir hafa undanfarnar vikur barist við herskáa Palestínumenn í búðunum og hafa rúmlega 200 manns látist þar síðan þann 20. maí.
Líbönsku hermennirnir eru sagðir hafa skotið viðvörunarskotum yfir höfuð um 100 mótmælenda. Þegar hópurinn tvístraðist ekki eru hermennirnir sagðir hafa skotið á hópinn með fyrrgreindum afleiðingum.
Rúmlega 20.000 flóttamenn hafa flúið búðirnar eftir að bardagar brutust þar út. Þrátt fyrir að enn sé barist við uppreisnarmenn í búðunum hafa margir Palestínumenn óskað eftir því að snúa aftur til heimila sinna.