Fjórir í haldi vegna árása í Bretlandi

Viðbúnaðarástand í Bretlandi vegna hryðjuverkahættu var hækkað í kvöld eftir fund neyðarnefndar landsins. Fjórir menn eru í haldi eftir að tilraunir voru gerðar til sprengjuárása í Lundúnum í gær og á Glasgowflugelli í dag. Skoska lögreglan sagði að málin í Glasgow og Lundúnum tengdust.

Tveir menn voru í Cherokee-jeppa, sem ekið var logandi á flugstöðina í Glasgow um tvöleytið í dag. Mennirnir voru handteknir og fluttir á sjúkrahús þar sem þeir meiddust. Barst eldur í föt annars þeirra og liggur hann nú á sjúkrahúsi og er talinn í lífshættu vegna alvarlegra brunasára.

Grunsamlegur búnaður fannst á manninum og var sjúkrahúsið rýmt í öryggisskyni. Lögregla vill ekki tjá sig um búnaðinn eða eðli árásarinnar en fréttastofur hafa eftir öryggisvörðum, að maðurinn hafi verið með sprengjubelti.

Þá voru tveir menn handteknir í Cheshire í kvöld í tengslum við málið.

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, sagði í sjónvarpsávarpi í kvöld að tilraunir til sprengjuárása í Lundúnum í gær og Glasgow í dag réttlættu aukinn viðbúnað.

„Frumskylda stjórnvalda er að trygga öryggi allra breskra þegna," sagði Brown í sjónvarpsávarpi frá Downingstræti 10. „Þess vegna er rétt, að hækka viðbúnaðarstig á flugvöllum og fjölförnum stöðum í ljósi aukinnar hætti. Ég vil að breska þjóðin verði vel á verði og styðja lögreglu og stjórnvöld... Ég veit að Bretar munu standa saman," sagði Brown.

Öryggisgæsla hefur verið hert á öðrum breskum flugvöllum í kjölfar þessara atburða. Víða var götum við flugvelli lokað og lögreglumönnum fjölgað á vöktum. Þetta á m.a. við um Lundúnaflugvellina Heathrow, Gatwick og Stansted.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka