Lögreglan í Glasgow lítur svo á að um hryðjuverk hafi verið að ræða er tveir menn óku logandi jeppa á flugstöðina við borgina um tvöleytið í dag. Mennirnir hafa verið handteknir, en báðir voru fluttir á sjúkrahús þar sem þeir hlutu meiðsl er þeir óku jeppanum á flugstöðina. Barst eldur í föt annars þeirra. Öryggisráðstafanir hafa verið hertar á öðrum breskum flugvöllum í kjölfarið.
Sky News hefur eftir heimildamönnum að miðað sé við að um hryðjuverk hafi verið að ræða. Fregnir herma að bílnum hafi verið ekið hægt að flugstöðinni og síðan beygt skyndilega og ekið á andyri byggingarinnar. Flugvöllurinn er lokaður og öllu flugi um hann hefur verið aflýst.
Þá segir Sky að vopnaðir lögreglumenn hafi lokað Blackpool-flugvelli.
Öryggisgæsla hefur verið hert á öðrum breskum flugvöllum í kjölfar þessara atburða. Víða var götum við flugvelli lokað og lögreglumönnum fjölgað á vöktum. Þetta á m.a. við um Lundúnaflugvellina Heathrow, Gatwick og Stansted.