Páfi sendir kínverskum kaþólikkum sáttaboð

Benedikt XVI páfi.
Benedikt XVI páfi. Reuters

Benedikt XVI páfi bauð í dag öllum kaþólikkum í Kína að sameinast undir merkjum rómversk-kaþólsku kirkjunnar í Róm. Þá hvatti hann kínversk stjórnvöld til að taka á ný upp stjórnmálasamskipti við Páfagarð og heimila trúfrelsi í landinu.

Páfi sagði, að kaþólska kirkjan, sem starfar í skjóli kínverskra stjórnvalda, samræmdist ekki kaþólskum kenningum en kínversk stjórnvöld hafa sjálf skipað biskupa í söfnuðunum og hundsað þá biskupa, sem Páfagarður hefur skipað. Páfi ítrekar í bréfinu að hann hafi rétt til að skipa biskupa í Kína en segist viss um að samkomulag náist við kínversk stjórnvöld um það.

Um 12 milljónir Kínverja játa kaþólska trú og þar af er helmingurinn í „neðanjarðarsöfnuðum" sem teljast rómversk-kaþólskir og helmingurinn er í opinberum kínverskum söfnuðum. Það þykir skipta miklu máli, að í bréfinu afturkallar páfi takmarkanir, sem gilt hafa á samskiptum milli þessara safnaða og viðurkennir, að rómversk-kaþólskir Kínverjar eigi hugsanlega einskis annars úrkosti en að sækja messur, sem viðurkenndar eru af kínverskum stjórnvöldum.

Stjórnvöld neyddu kaþólikka í Kína til að slíta tengsl við Páfagarð árið 1951. Páfagarður tók þá upp stjórnmálatengsl við Taívan og er það kínverskum stjórnvöldum mikill þyrnir í augum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert