Bresk yfirvöld telja hryðjuverk yfirvofandi

Viðbúnaður vegna yfirvofandi hættu er á „alvarlegu" stigi, sem er hæsta viðbúnaðarstig, á Bretlandseyjum, en samkvæmt því telja yfirvöld að hryðjuverk kunni að vera yfirvofandi. Nú um hádegisbil handtók lögreglan mann í Liverpool í tengslum við rannsókn tilræðisins á Glasgow-flugvelli í gær, og hafa þá alls fimm verið handteknir í kjölfar þess.

Í blaðagrein eftir John Stevens lávarð, öryggisráðgjafa Gordons Browns forsætisráðherra, sem birtist í dag, segir m.a. að áhrif al-Qaeda í Bretlandi hafi aukist umtalsvert. Hryðjuverkin í London í júlí 2005 hafi verið hræðileg, en nú séu al-Qaeda farin að beita sömu aðferðum í Bretlandi og beitt hafi verið í Írak og á Balí.

Ástandið eigi eftir að versna áður en það batni.

Gæsla er mjög ströng á Wembley-leikvanginum í London þar sem í dag verða haldnir minningartónleikar um Díönu prinsessu, sem hefði orðið 46 ára í dag. Búist er við þúsundum gesta á tónleikana.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka