Pútín kemur til Bandaríkjanna

Vladímír Pútín, forseti Rússlands, kom í kvöld til Bandaríkjanna þar sem hann ætlar að ræða við George W. Bush, Bandaríkjaforseta. Að sögn talsmanns Kremlar er markmiðið með viðræðunum að draga úr spennu, sem farið hefur vaxandi milli ríkjanna tveggja á undanförnum misserum.

Flugvél Pútíns lenti í Portsmouth í New Hampshire en þaðan mun forsetinn fljúga með þyrlu til húss Bushfjölskyldunnar í Kennebunkport í Maine. Þar munu forsetarnir tveir sitja fund, sem nefndur hefur verið humarleiðtogafundurinn en humarinn í Kennebunkport er þekktur fyrir gæði.

Það sem einkum hefur valdið deilum ríkjanna tveggja eru áform Bandaríkjamanna um að koma upp eldflaugavarnakerfi í austurhluta Evrópu en því er Pútín algerlega andvígur.

Um 1700 manns stóðu í kvöld fyrir mótmælum í Kennebunkport. Hrópaði fólkið slagorð gegn hernaði Rússa í Tétsníu og krafðist jafnframt eftir því að Bandaríkjaþing ákærði Bush til embættismissis. Mótmælin fóru friðsamlega fram.

Bush hefur verið í Kennebunkport undanfarna daga ásamt fjölskyldu sinni. Í dag fór forsetinn í veðiferð í báti ásamt George H.W. Bush, föður sínum og Barböru dóttur sinni. Þau vörpuðu akkerum um 30 metra undan strönd Maine en þegar þau ætluðu að snúa aftur tókst þeim ekki að draga akkerið inn.

Að sögn ljósmyndara AP fréttastofunnar, sem fylgdist með, kallaði öryggisvörður frá bandarísku leyniþjónustunni til kafara, sem voru í öðrum báti álengdar. Tókst þeim að losa akkerið eftir nokkurt símabrak. Talsverður mannfjöldi safnaðist saman á ströndinni og fylgdist með og Bush yngri veifaði hatti sínum til þeirra.

George H. W. Bush tekur á móti Pútín við komuna …
George H. W. Bush tekur á móti Pútín við komuna til Bandaríkjanna. AP
George W. Bush, í miðið, að veiðum í dag ásamt …
George W. Bush, í miðið, að veiðum í dag ásamt George H. W. Bush, föður sínum og Barböru, dóttur sinni. AP
Kafarar bandarísku leyniþjónustunnar þurftu að losa akkeri báts Bush eldra …
Kafarar bandarísku leyniþjónustunnar þurftu að losa akkeri báts Bush eldra undan strönd Maine í dag. AP
Á annað þúsund manns mótmæltu Bush og Pútín í dag.
Á annað þúsund manns mótmæltu Bush og Pútín í dag. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert