Tveir hinna handteknu eru læknar

Fjórir karlmenn og ein kona hafa verið handtekin á Bretlandseyjum vegna tilrauna til sprengjuárása í Lundúnum og Glasgow. Konan og karlmaður, sem handtekin voru á M6 hraðbrautinni í Cheshire í gær eru læknar, sem unnið hafa á sjúkrahúsum í Bretlandi. Breska ríkisútvarpið, BBC, segir að karlmaðurinn heiti Mohammed Asha, sé 26 ára gamall frá Íran. Konan er 27 ára gömul.

Annar 26 ára gamall karlmaður var handtekinn í dag í Liverpool. Allt var fólkið flutt á Paddington Green lögreglustöðina í Lundúnum til yfirheyrslu. Lögreglan segir að enginn hinna handteknu sé með breskt ríkisfang.

Tveir menn voru handteknir eftir að þeir óku logandi jeppa á flugstöðvarbyggingu í Glasgow. Annar þeirra hlaut alvarleg brunasár og liggur á sjúkrahúsi í borginni. Hinn er 27 ára gamall og er í haldi lögreglu.

Breskir fjölmiðlar segja, að talið sé að lögregla leiti að minnsta kosti eins manns til viðbótar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert