Al-Qaeda skipuleggur stórbrotnar árásir í sumar

Frá flugvellinum í Glasgow
Frá flugvellinum í Glasgow AP

Samkvæmt bandarískri leyniskýrslu sem gerð hefur verið fyrir heimavarnarráðuneyti Bandaríkjanna er varað við því að al-Qaeda hryðjuverkasamtökin skipuleggi stórbrotin hryðjuverk nú í sumar. Samkvæmt bandarísku sjónvarpsstöðinni ABC fengu yfirvöld þar í landi upplýsingar um árásirnar í London og Glasgow nú um helgina.

Fréttastofa ABC sjónvarpsstöðvarinnar telur sig hafa heimildir fyrir þessu. Á fréttavef ABC kemur fram að háttsettur embættismaður hafi sagt að samkvæmt leyniskýrslunni skipulegði al-Qaeda stórbrotin hryðjuverk nú í sumar og sagði hann að þetta minnti á upplýsingar og viðvaranir sem yfirvöld fengu fyrir sumarið 2001.

Bandarískir embættismenn hafa þagað yfir þessari skýrslu og yfirmaður heimavarnarráðuneytisins, Michael Chertoff sagði í samtali við ABC fréttastofuna að Bandaríkin hefðu engar nákvæmar upplýsingar eða haldbæra sönnun þess að árás á Bandaríkin væri í vændum.

Er hann var spurður um hvers vegna viðvaranir um árásirnar á Glasgow-flugvöll hefðu ekki borist til yfirvalda þar í landi sagðist hann ekki geta tjáð sig sérstaklega um það mál en bætti því við að bandarískar leyniþjónustur deildu öllum upplýsingum án tafa við starfsfélaga sína í Bretlandi.

Í Þýskalandi hafa yfirvöld gefið út almennar viðvaranir þess efnis að nú í sumar séu líkur á að stórfelldar árásir verði gerðar þar í landi á borð við árásina á New York 11. september 2001.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka