Það er mjög erfitt að fá gaskúta til þess að springa, segir öryggissérfræðingur. Það er ástæðan fyrir því að hryðjuverkamönnum í Glasgow tókst ekki að valda miklum skaða. Þetta kemur fram á fréttavef Berlingske Tidende.
Í öllum bílunum sem átti að sprengja í Lundúnum og Glasgow voru própan gaskútar aðalsprengiefnið. Það var þó ekki mjög góð hugmynd hjá hryðjuverkamönnunum, þar sem um 20 til 30 mínútur líða áður en gaskútur springur, samkvæmt upplýsingum öryggissérfræðingsins. Hryðjuverkamönnunum tókst aðeins að sprengja einn bíl af þremur.