Nýfæddur górilluungi í dýragarðinum í Münster í Þýskalandi var um helgina fluttur á gjörgæsludeild sjúkrahúss í borginni. Unginn, sem er kvenkyns og nefnist Mary Zwo, þjáðist af vökvatapi og ofkælingu en móðir hennar sinnti henni ekki.
Mary Zwo, sem er sex vikna gömul, var sett í hitakassa þar sem hún jafnaði sig og er sögð á góðum batavegi. Talsmaður dýragarðsins sagði, að nýfæddir apar séu líffræðilega svipaðir nýfæddum börnum og þess vegna hafi aðstaðan á sjúkrahúsinu hentað unganum vel.
Gert er ráð fyrir því að Mary Zwo verði væntanlega flutt í dýragarðinn í Stuttgart innan skamms en þar er talsverður hópur apaunga.