Myndum af Madeleine McCann, sem var stolið nýverið frá föður hennar hefur verið skilað. Madeleine, sem er fjögurra ára gömul, var rænt í Portúgal í byrjun maí. Veski Gerry McCann, sem er faðir Madeleine, var stolið af vasaþjófi á Waterloo lestarstöðinni í Lundúnum nýverið. Sky fréttastöðin greinir frá þessu.
Samkvæmt upplýsingum Sky hélt þjófurinn eftir 30 evrum sem voru í veskinu en sendi veskið ásamt myndum og skilríkjum í pósti til McCann.
Myndirnar sem voru í veskinu eiga að vera eftirlætismyndir Gerry McCann af Madeleine.
Foreldrar Madeleine eru enn í Praia da Luz í Portúgal þar sem Madeleine hvarf í byrjun maí.