Auglýsing þar sem fólk er beðið um að láta vita ef það hefur einhverjar upplýsingar um hvarf Madeleine McCann hefur vakið reiði meðal almennings í Bretlandi. Auglýsingin er sýnd á undan kvikmyndinni Shrek hinn þriðji.
Bloggarar á vefnum Mumsnet hafa harðlega gagnrýnt auglýsinguna þar sem foreldrar segja að þeir hafi gert allt sem í þeirra valdi stendur til að halda börnum sínum frá umræðu um hvarf Madeleine.
Samkvæmt frétt á vef Sky hafa um fjögurhundruð bloggarar látið í ljós reiði sína á Mumsnet. Jafnframt hafa foreldrar haft samband við kvikmyndahúsaeigendur og eftirlitsaðila auglýsinga.
Breska dagblaðið Times greinir frá því að Odeon kvikmyndahúsin hafi ákveðið að hætta að sýna auglýsinguna á undan Sherk en hún verði áfram sýnd á undan öðrum kvikmyndum.
Talsmaður leitarinnar að Madelein McCann hefur beðið afsökunar á því fári sem auglýsingin hefur valdið meðal foreldra.
Madeleine, sem er fjögurra ára gömul bresk stúlka, hvarf úr hótelíbúð í strandbænum Praia da Luz í Algarve-héraði í Portúgal en foreldrar hennar höfðu skilið hana og yngri systkini hennar eftir í íbúðinni er þau fengu sér kvöldmat þann 3. maí sl. Síðan þá hefur ekkert til hennar spurst.