Brown vill nýja stjórnarskrá og þjóðaröryggisráð

Gordon Brown, í miðið, stýrir ríkisstjórnarfundi í Lundúnum í dag.
Gordon Brown, í miðið, stýrir ríkisstjórnarfundi í Lundúnum í dag. Reuters

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, lagði í dag til að gerðar verði umfangsmiklar breytingar á stjórnkerfi Bretlands, þar á meðal, að samin verði sérstök stjórnarskrá. Þá lagði Brown til að stofnað verði sérstakt þjóðaröryggisráð.

Brown kynnti í dag tillögur, sem eiga að miða að því að auka traust á stjórnvöldum, færa þinginu aukin völd og auka gegnsæi í stjórnarháttum.

Meðal þess sem Brown vill breyta er að takmarka eða afnema völd ríkisstjórnarinnar til að lýsa yfir stríði án samþykkis þingsins.

Þá leggur Brown til að stofnað verði nýtt þjóðaröryggisráð, þar sem m.a. verði leiddir saman fulltrúar leyniþjónustustofnana, sem starfa innan og utan Bretland. Sagði Brown að slíkt gefi til kynna, að Bretar séu stöðugt á verði og muni aldrei láta undan hryðjuverkaógn.

Það sem mun þó án efa kveikja mestar umræður er tillaga Browns um að sérstök stjórnarskrá verði samin fyrir Bretland. Núgildandi stjórnarskrá er raunar einskonar lagasafn þar sem haldið er til haga lagalegum fordæmum, alþjóðasamningnum, þinghefðum og konunglegu tilskipanavaldi.

Brown sagðist vilja að almenningur tæki virkan þátt í umræðu um slíka stjórnarskrá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert