Lundúnabúar virðast taka lífinu létt þrátt fyrir þá hryðjuverkaógn sem blasir við þeim þessa dagana. Lögregluþjónum hefur verið fjölgað á götum borgarinnar, lestasamgöngur ganga hægar fyrir sig og flugvellir hafa verið rýmdir að undanförnu. En ekkert virðist geta raskað ró íbúanna.
Viðmælendur AFP fréttastofunnar í Lundúnum voru sammála um að þetta væri ekkert til þess að æsa sig yfir, enda Bretar ekki eina þjóðin í heiminum sem glímir við hryðjuverkaógn. Í svipaðan streng taka lögregluþjónar sem AP ræddi við. Að sögn umferðarlögregluþjóns sem fréttamaður AFP ræddi við er ógnin alltaf til staðar og ekkert nýmæli fyrir Englendinga sem upplifðu hótanir og árásir írska lýðveldishersins, IRA, um árabil. Eins eru einungis tæp tvö ár síðan 52 óbreyttir borgarar létust í hryðjuverkaárásum í borginni.