Nokkur stærstu lestarfélög Evrópu ætla að taka sig saman um að keppa við flugfélögin. Alls hafa níu evrópsk lestarfélög myndað bandalag í sjö löndum. Félögin verða meðal annars í samstarfi um miðasölu þannig að hægt er að nýta miða á milli fyrirtækja. Jafnframt heita félögin því að bjóða upp á ódýrustu fargjöldin sem bjóðast á hverjum tíma.
Eurostar, þýska lestarfélagið Deutsche Bahn og franska lestarfélagið SNCF hafa öll skrifað undir samstarfssamninginn auk þess austurríska, svissneska, hollenska og belgíska, að því er segir í frétt BBC.