Írski sjóherinn og strandgæslan hafa fínkembt strandlínuna og hafsvæðið fyrir utan Cork sýslu í leit að kókaínbögglum sem hafa flotið þar á land eftir mislukkaða tilraun til að smygla um einu og hálfu tonni af eiturlyfinu í land.
Lögregla komst fyrir slysni að smyglvarningnum í gær þegar einn grunaður kókaínsmyglari synti í land og gerði viðvart um bát sem hafði hvolft í miklum öldugangi. Hafin var leit að félaga mannsins sem talið var að hefði fallið útbyrðis. Einn maður fannst ásamt gríðarlega mörgum fljótandi pökkum af kókaíni.
Mennirnir virðast hafa notað þrjá sportbáta við að ferja pakkana í land en þurft að yfirgefa þá. Það sást til tveggja manna leggja á flótta frá einum bátanna og er þeirra nú leitað sem og móðurskipinu sem talið er að hafi komið með varninginn frá Vestur-Afríku og talið er að þangað hafi það ratað frá Suður-Ameríku.
Verðmæti varningsins er talið vera um 85 milljónir króna og þrefalt það ef efnið hefði verið blandað með sykri til sölu á götunni.