Ayman al-Zawahiri, hægri hönd Osama bin Ladens í hryðjuverkasamtökunum al-Qaeda, hefur sent frá sér nýtt myndband þar sem hann hvetur múslima til að sameinast í heilögu stríði og styðja hreyfingu íslamista í Írak.
Myndbandið er rúmlega eins og hálfs tíma langt og þar fjallar al-Zawahiri um ýmis málefni, allt frá Írak til Sádi-Arabíu, heimastjórnarsvæði Palestínumanna og Egyptaland, að sögn bandarísks eftirlitshóps sem fylgist með tilkynningum al-Qaeda.
Myndbandið hefur ekki verið birt á netinu enn, en hópurinn segist hafa fengið það í hendur og hefur birt endurrit ávarps al-Zawahiris. Þar hvetur hann Íraka og múslima til að styðja hreyfinguna Íslamska ríkið í Írak, samtök uppreisnarmanna sem tengjast al-Qaeda.