Mikill viðbúnaður er vegna fyrirhugaðra hátíðarhalda í tilefni af þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna í dag. Hefur öryggiseftirlit verið hert til muna vegna þeirrar hryðjuverkaógnar sem Bretar hafa búið við síðan á föstudag. Venjulega er mikið um dýrðir langt fram eftir kvöldi og flugeldasýningar víða. Hins vegar verður fátt um fína drætti hvað það varðar í einhverjum ríkjum vegna mikilla þurrka að undanförnu og því eldhætta mikil. Sökum þess hefur flugeldasýningum meðal annars verið aflýst í Colorado- og Washington-ríki.
Gríðarlegur fjöldi lögregluþjóna á vakt í Washington
Í höfuðborg Bandaríkjanna, Washington, fara hátíðarhöldin fram á National Mall svæðinu. Frá 11. september 2001 hefur svæðið verið girt af á þjóðhátíðardaginn og gestir þurft að fara í gegnum öryggishlið áður en þeir koma inn á svæðið. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er það gert til þess að tryggja öryggi gesta. Auk þess verður gríðarlegur fjöldi lögregluþjóna á vakt á svæðinu og eins mun lögregluþyrla sveima yfir svæðið og fylgjast með.
110 þúsund manns hafa fengið ríkisborgararétt í ár
Þrátt fyrir eldhættu víða þá verða New York búar ekki af hinni árlegu flugeldasýningu á þjóðhátíðardaginn en sýningin þykir eins sú besta í heimi. Í kvöld mun bandarískum ríkisborgurum fjölga um nokkur þúsund en hefð er fyrir því á 4. júlí að þann dag sverji innflytjendur sem hafa fengið bandarískan ríkisborgararétt heit sitt. Í ár hafa óvenju margir fengið þegnrétt í Bandaríkjunum eða um 110 þúsund en á sama tíma í fyrra voru þeir rúmlega 66 þúsund talsins.