Jórdanskur læknir og eiginkona hans sem voru handtekin í Bretlandi í tengslum við fyrirhugaðar hryðjuverkaárásir hafa sagt fjölskyldum sínum í Jórdaníu að þau séu saklaus. Hjónin voru handtekin á mánudag en á föstudag aftengdi breska lögreglan bílsprengur í tveimur bifreiðum í höfuðborg Bretlands, Lundúnum.
Mohammed Jamil Asha og eiginkona hans Marwa, hringdu til fjölskyldna sinna í Jórdaníu í gær þar sem þau lýstu yfir sakleysi sínu, að sögn ættingja hjónanna.
Breska lögreglan hefur lýst því yfir Mohammed Jamil Asha sé einn þeirra átta sem hafa verið handteknir í tengslum við fyrirhugaðar bílsprengjuárásir í Bretlandi í síðustu viku. Jafnframt var eiginkona hans handtekin en hún var með honum í bílnum er Asha var handtekinn.
Bróðir Asha, Abdullah, hefur greint fjölmiðlum frá því að læknirinn hafi hringt í gær til þess að láta vita af sér. Sagði Mohammed Jamil Asha að sér liði vel en tók það ítrekað fram að hann væri saklaus. Sagðist hann liggja undir grun en hann hafi ekki verið ákærður.
Marwa hringdi í móður sína í gær og sagði að hún hafi einungis verið handtekin þar sem hún væri eiginkona Mohammeds Asha.